Þýðingarmikið hlutverk
Hlutverk VÍS er að veita viðskiptavinum hugarró, viðeigandi vernd og framúrskarandi þjónustu. Þegar verulega bjátar á er gott að vera rétt og vel tryggður. Með liðsinni VÍS geta viðskiptavinir létt verulega af sér fjárhagslegum byrðum í raunum. Mikilvægur liður í starfseminni er jafnframt að fyrirbyggja slys og tjón. Mjög rík áhersla hefur verið lögð á þennan þátt um árabil bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum.
Vinnuslysum hefur fjölgað hratt undanfarin misseri. Árið 2014 hafði vinnuslysum fjölgað um 43% frá árinu 2010 og voru aðeins litlu færri skráð hjá Vinnueftirlitinu en góðærisárið 2007. Þegar þetta er ritað liggja endanlegar vinnuslysatölur ársins 2015 ekki fyrir.
Heildarkostnaður heilbrigðiskerfisins af umferðarslysum árið 2015 er áætlaður 48.486 milljónir króna á verðlagi ársins 2013. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi í febrúar 2016 og jafnframt að hvert banaslys kostar heilbrigðiskerfið 660 milljónir króna og alvarlegt slys liðlega 86 milljónir króna.
Í samræmi við stefnu félagsins um samfélagsábyrgð er unnið með margvíslegum hætti að því að draga úr hættu á slysum og tjónum hjá viðskiptavinum. Til að mynda fá viðskiptavinir ýmis konar heilræði og skilaboð send þegar ástæða er til líkt og þegar óveður er í aðsigi eða mikið frost í kortunum. Áhugaverðu efni sem á erindi við almenning er miðlað til fjölmiðla sem iðulega gera því góð skil. Markvisst forvarnastarf með nokkrum af stærstu viðskiptavinum okkar á fyrirtækjasviði hefur skilað góðum árangri. Færri slys og tjón skila sér í lægri tjónakostnaði sem hefur svo áhrif til lækkunar á iðgjöldum.
Samfélagsábyrgð fyrirtækisins hvílir á fleiru en öflugum forvörnum. Lögð er áhersla á að starfsemi félagsins og samstarfsaðila stuðli að sem minnstri mengun, hreinni náttúru og förgun úrgangs í kjölfar tjóna, á sem umhverfisvænstan hátt. VÍS kappkostar að fylgja lögum og reglum í hvívetna. Félagið á aðild að jafnréttissáttmála UN Women og UN Global Compact og stutt er við margvísleg verkefni sem stuðla að öryggi í samfélaginu þar sem megináhersla er lögð á forvarnargildi styrktarverkefna.
VÍS nýtur viðurkenningar Rannsóknarmiðstöðvar í stjórnarháttum við Háskóla Íslands sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Félagið hreppti þessa viðurkenningu fyrst tryggingafélaga en með henni eru stjórnarhættir félagsins árlega staðfestir af óháðum utanaðkomandi aðilum. Stjórnarháttayfirlýsingu VÍS í heild sinni getur að líta undir kaflanum Stjórn og skipulag.
Framtíðarsýn
Hjá VÍS snúast tryggingar um fólk og frá árinu 2012 hefur verið unnið í samræmi við stefnu þar sem framtíðarsýnin er: Ánægja og tryggð viðskiptavina með einfaldleika að leiðarljósi. Áherslan á einföldun nær til allra þátta starfseminnar s.s. verklags, kerfa, samskipta og skipulags. Stöðugt er leitað leiða til að gera reksturinn skilvirkari með betri þjónustu og lægri kostnaði.
Árlega er stefna VÍS endurskoðuð með tilliti til þessarar framtíðarsýnar. Á VÍS deginum 2015 komu allir starfsmenn saman og fóru yfir árangurinn og rýndu stefnuna. Hvað gekk vel, hvað mætti ganga betur, er VÍS á réttri leið og hvort breytinga væri þörf? Yfir 500 verkefni, ábendingar og hrós komu fram í þessari vinnu. Farið var yfir öll atriðin og þau sett í viðeigandi farveg til formlegrar úrvinnslu. Endurskoðuð stefna og starfsáætlun er unnin upp úr þessum grunni, samþykkt af stjórn og kynnt á starfsmannafundi.
VÍS tekur nýjan hugbúnað í notkun árið 2016 sem gerir alla umsýslu með tryggingar, iðgjöld og uppgjör fljótlegri og einfaldari en verið hefur. Kerfið er frá danska hugbúnaðarfyrirtækinu TIA Technology A/S og eru lausnir þess notaðar af fleiri en 100.000 notendum í yfir 60 löndum.
Straumlínustjórnun VÍS var fram haldið á árinu. Vel gekk að búa til skilvirka ferla, minnka sóun, fækka villum og vinna að stöðugum umbótum. Lokið var við innleiðingu LEAN innan fyrirtækja- og fjármálasviðs auk tveggja deilda á tjónasviði. Ávinningur verkefna var í samræmi við upphafleg markmið. Stjórnendur hafa nýtt sér aðferðafræðina áfram til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og festa þannig í sessi menningu sem byggir á stöðugum umbótum.
Eftir þessu er tekið hjá öðrum fyrirtækjum og fékk VÍS margar heimsóknir þar sem gestir kynntu sér hvernig staðið er að þessu verkefni hjá félaginu. Auk þess var efnt til ráðstefnu í Hörpu síðastliðið vor þar sem starfsmenn kynntu hvernig LEAN menning er innleidd hjá VÍS og tveir erlendir sérfræðingar á þessu sviði miðluðu af reynslu sinni.
Sífellt fleiri viðskiptavinir vilja nýta sér rafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslu. Skráningum inn á MittVÍS fjölgaði til að mynda um 85% á árinu. Nýr vefur VÍS, vis.is, fór í loftið í maí. Hann er hannaður frá grunni með virkni og upplifun viðskiptavina að leiðarljósi. Þar er m.a. hægt að fylla út rafrænar tjónstilkynningar og hefur fjöldi þeirra þrefaldast frá árinu 2013. Vis.is hlaut á dögunum verðlaun Samtaka vefiðnaðarins sem besti vefurinn í flokknum: Besta hönnun og viðmót.
Í framtíðinni kemur verðlagning trygginga til með að taka í ríkara mæli mið af áhættu og aðstæðum hvers og eins. Til dæmis getur tegund, litur og öryggisbúnaður bíls haft áhrif á iðgjald ökutækjatryggingar. Þegar eru komnir sjálfkeyrandi bílar erlendis sem gætu átt eftir að hafa áhrif á þær ökutækjatryggingar sem nú eru í boði. Ökutækjatryggingar nema um 45% af iðgjaldatekjum VÍS og ljóst að takast þarf á við þessar áskoranir í tíma.
Það sama á við um aðrar nýjungar sem ör tækniþróun og breytingar í samfélaginu eiga eftir að geta af sér. Vera þarf vakandi fyrir þeim og gæta þess að VÍS sé ávallt í takt við tíðarandann og í stakk búið að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavina. Það hefur tekist undanfarin hundrað ár og gerir það næstu öld líka.