Fjárfestingar


Fjárfestingastarfsemi er önnur af undirstöðunum í rekstri VÍS.

Markmið hennar er að ávaxta fjárfestingaeignir félagsins á sem bestan og öruggastan hátt. Þær eru til til að mæta óuppgerðum tjónum og öðrum skuldbindingum. Þannig hvílir á félaginu mikil ábyrgð að ávaxta þá fjármuni með öruggum hætti.

Fjárfestingaeignir í lok árs 2015 námu 33.634 milljónum króna og minnkuðu um 1.024 milljónir króna ára. Helstu skýringar á því að eignasafnið minnkaði á milli ára eru að greiddar voru 2.488 milljónir króna í arð á árinu og félagið keypti eigin bréf fyrir um 1.216 milljónir króna.

Um áramótin var hlutfall auðseljanlegra eigna í eignasafni félagsins 73,7%. Miklu skiptir að vera með hátt hlutfall auðseljanlegra eigna til þess að takast á við breytingar á eignamörkuðum og grípa þau tækifæri sem skapast á mörkuðum.

Eignir

Graf - eignir - ekki breyta þennan texta

Samsetning fjárfestingaeigna er skilgreind í fjárfestingastefnu félagsins. Fjárfestingastefnan er endurskoðuð að minnsta kosti einu sinni á ári og samþykkt af bæði stjórn VÍS og FME. Í henni eru sett fram langtímamarkmið um vægi eignaflokka í eignasafni félagsins byggt á sögulegri ávöxtun og áhættu og heimild til að víkja frá þeim markmiðum. Fjárfestingastefnan þarf að vera í samræmi við gjaldþolsmarkmið og áhættuvilja félagsins.

Helstu breytingar frá síðasta ári voru þær að dregið var úr vægi ríkistryggðra skuldabréfa í eignasafninu og ríkisskuldabréf seld fyrir meira en 5 milljarðar króna nettó. Þetta er í takt við þróun síðustu ára þar sem aukið hefur verið verulega við eign í öðrum skuldabréfum eins og sértryggðum skuldabréfum banka og annarra fyrirtækja.

Kaup og sala

Graf - kaup og sala - ekki breyta þennan texta

Ávöxtun fjárfestingaeigna var góð á árinu og jákvæð á öllum eignaflokkum. Fjármunatekjur námu tæpum 4.076 milljónum króna sem jafngildir 12,2% ársávöxtun.  Þetta er betri ávöxtun en árið 2014 þegar fjármunatekjur námu tæpum 2.439 milljónum króna sem jafngilldir 7,1% ávöxtun.

Afkoma

Graf - afkoma - ekki breyta þennan texta

Afkoma hlutabréfa átti stóran þátt í góðri afkomu af fjárfestingaeignum en hagnaður félagsins af skráðum og óskráðum hlutabréfum var 2.228 milljónum króna á árinu. Skráð innlend hlutabréf áttu stærstan þátt í því enda var ávöxtun þeirra 42,3% á árinu hjá VÍS. Það er samt lakari ávöxtun en nam OMXI8 GI vísitölunni sem mælir verðþróun innlendra hlutabréfa, en hún hækkaði um 49%. Meginskýring á muni ávöxtunar milli eignasafns VÍS og vísitölunnar liggur í því að tvö félög Icelandair og Marel mynda meira en helming vísitölunnar og hækkuðu langt umfram vísitöluna (Marel 84% og Icelandair 65%) en vægi þessara eigna í eignasafni félagsins var lægra en í vísitölunni.

Erlendir hlutabréfamarkaðir áttu hins vegar undir högg að sækja, sérstaklega seinni hluta ársins þegar augu fjárfesta beindust helst að hagvaxtarhorfum í Kína og stöðu fjármálafyrirtækja. Styrking krónunnar hafði líka áhrif til lækkunar á verði erlendra hlutabréfa þannig að ávöxtun MSCI vísitölunnar hækkaði aðeins um 1,7% í krónum talið. Hluti af fjárfestingum VÍS er í erlendum hlutabréfum og var afkoma þeirra óviðunandi þrátt fyrir að hún hafi verið aðeins betri en viðmiðunarvísitalan, eða 2,4%. Óskráð hlutabréf félagsins hækkuðu um 17,3% á árinu.

Ávöxtun á skuldabréfamörkuðum var líka góð, þrátt fyrir tvær vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands. Þar skiptir miklu að erlendir fjárfestar komu með alls 50 milljarða króna nýfjárfestingu í ríkisskuldabréfum á seinni hluta ársins. Einnig hefur batnandi afkoma ríkissjóðs og greiðslur vegna uppgjörs á gömlu bönkunum leitt til þess að lánsfjárþörf ríkisins hefur dregist verulega saman. Það kom félaginu til góða að stór hluti ríkisskuldabréfa félagsins var verðtryggður en ávöxtun þeirra var talvert betri en óverðtryggðra ríkisskuldabréfa á árinu.

Hagvöxtur var 4,1% á árinu 2015 samkvæmt spá Seðlabankans og eru taldar líkur á kröftugum hagvexti áfram. Er þetta talsvert meiri hagvöxtur en við sjáum hjá nágrannalöndum okkar.

Heilt yfir var efnahagsumhverfið nokkuð hagfellt á árinu og ástæða til að horfa björtum augum fram ávið. Þó er ástæða til að óttast verðlagsþróun þegar líða tekur á árið, sér í lagi ef olíuverð og þróun verðlags erlendis breytist mikið. Enn búum við gjaldeyrishöft sem óvíst er með hvaða hætti verða losuð.

Góð ávöxtun á innlendum eignum félagsins endurspeglar þá miklu breytingu sem hefur orðið á efnahagsumhverfinu á Íslandi. Samkvæmt bráðabirgðaspá Hagstofunnar var 4,0% hagvöxtur árið 2015 og spáð er áframhaldandi hagvexti næstu tvö árin. Þetta er talsvert meiri hagvöxtur en spáð er í okkar helstu viðskiptalöndum.

Krónan styrktist um 7,9% á síðasta ári enda var kröftugt innflæði fjármagns, sérstaklega í gegnum þjónustujöfnuð sem að stærstum hluta má rekja til fjölgunar ferðamanna á Íslandi. Þrátt fyrir þessa styrkingu keypti Seðlabanki Íslands erlendan gjaldeyri fyrir alls 272 milljarða króna á árinu og nam hreinn gjaldeyrisforði bankans 313 milljörðum króna í lok árs.

Styrking krónunnar og lágt olíuverð áttu einna stærstan þátt í því að verðbólga ársins var aðeins 2% sem er undir markmiðum Seðlabankans og áætlunum markaðsaðila.

Gert er ráð fyrir að samevrópsk vátryggingalöggjöf, Solvency II, taki gildi á Íslandi árið 2016. Löggjöfin hefur áhrif á fjárfestingastarfsemi VÍS því hún tekur m.a. tillit til markaðsáhættu sem er annar stærsti þátturinn sem myndar gjaldþolskröfu félagsins. Markaðsáhættan skiptist í nokkra undirflokka svo sem vaxtaáhættu og hlutabréfaáhættu.

Markaðsáhættan er því breytileg eftir því hvernig samsetning fjárfestingaeigna er. Þannig er hún meiri eftir því sem fjárfestingaeignir fela í sér meiri áhættu og öfugt. Meiri markaðsáhætta hækkar gjaldþolskröfu félagsins sem gerir það að verkum að meira eigið fé þarf til að mæta aukinni áhættu í fjárfestingastarfsemi félagsins. Ný löggjöf leggur einnig ríka áherslu á að skipulag við mat á fjárfestingum og fjárfestingakostum sé faglegt og beitt sé varfærnissjónarmiðum við ákvarðanir.