Efnahagsumhverfið


Árið 2015 var hið kaldasta á öldinni til þessa og óvenju úrkomusamt. Síðasta vetri fylgdu fádæma umhleypingar, sem náðu hámarki í miklu sunnanveðri þann 14. mars. Snjóa leysti fremur seint á árinu og voru kaldar norðanáttir ríkjandi sumarið 2015. Haustmánuðirnir voru hagstæðustu mánuðir ársins veðurfarslega en aftur fór að blása hressilega í desember með þremur nokkuð slæmum óveðrum.

Árið 2015 var hið kaldasta á öldinni til þessa og óvenju úrkomusamt.

Það blés einnig hraustlega um kjaramál almennings, með verkföllum og ósætti á vinnumarkaði fyrstu mánuði ársins. Á vormánuðum var samið um talsverðar launahækkanir og voru ráðamenn í Seðlabanka uggandi um að verðbólga léti á sér kræla í kjölfarið. En meðal annars vegna hagstæðra ytri skilyrða svo sem lítillar verðbólgu í nágrannalöndunum og hagstæðri þróun á olíuverði hefur verðbólgan enn ekki farið af stað.

Ferðamenn streymdu til landsins á árinu sem aldrei fyrr og er ferðaþjónustan orðin helsta stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Tæplega 1,3 milljónir ferðamanna fóru um Leifstöð árið 2015 og fjölgaði þeim um 30%. Dreifing innan ársins hefur líka breyst þannig að nú koma mun fleiri ferðamenn á öðrum tímum en yfir hásumarið eins og áður var. Búist er við að staumurinn aukist mikið á árinu 2016.

Ferðamenn streymdu til landsins á árinu sem aldrei fyrr og er nú svo komið að ferðaþjónusta er orðin helsta stoðin í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.

Gengi krónunnar styrktist á árinu um 7,5% og Seðlabankinn studdi vel við stöðugleika með virkum inngripum á gjaldeyrismarkaði á árinu. Gengi Bandaríkjadals styrktist lítillega gagnvart krónu en gengi evru seig nokkuð. Gengisvísitala krónunnar var 206,8 stig í upphafi árs og endaði í 191,4. Reiknað er með að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast.

Verðbólga var lág eða um 2% og hélst þannig undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Líkur eru á að hún haldist lág í það minnsta vel fram eftir 2016. Vextir Seðlabankans á veðlánaviðskipti voru 5,25% í upphafi ársins en hækkuðu í nokkrum skrefum í 6,50% á árinu 2015.

Bjartsýni og aukin tiltrú á íslenskt efnahagslíf hafði góð áhrif á eignamarkaði og hækkaði hlutabréfaverð nokkuð hraustlega. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði hefur aukist og fasteigna- og leiguverð hækkað. Innflutningur bíla tók góðan kipp á árinu. Nýskráningar fólksbíla voru 14 þúsund og jukust um 49% frá árinu áður.

Stór áfangi náðist á árinu þegar samningar kláruðust við kröfuhafa þrotabúa íslensku bankanna og rennir það enn frekari stoðum undir kraftmikla uppsveiflu í efnahag landsins til næstu missera.